
Sveinn Símonarson, einn af stofnendum og fyrri eigendum Kletts, hefur tekið við nýju hlutverki sem viðskiptastjóri hjá Styrkás. Í nýju hlutverki mun Sveinn vinna að mótun og þróun langtímasamskipta við lykilviðskiptavini samstæðunnar.
Styrkás hf. er rekstrarfélag sem stofnað var árið 2022 og hóf rekstur í ársbyrjun 2023. Skeljungur ehf., Klettur - sala og þjónusta ehf. og Stólpi ehf. eru dótturfélög Styrkás og saman mynda þessi félög samstæðu Styrkás.
„Það hefur verið mér sönn ánægja að fá að leiða uppbyggingu þjónustusviðs Kletts frá upphafi með því frábæra fólki sem þar starfar. Nú hlakka ég til að takast á við ný og spennandi verkefni hjá Styrkás og styðja við vöxt samstæðunnar í nánu samstarfi við starfsmenn og viðskiptavini,“ segir Sveinn.
Félagið hyggst verða leiðandi þjónustufyrirtæki á fyrirtækjamarkaði með styrk til að þjónusta innviða- og atvinnuvegafjárfestingu á Íslandi og stefnir á skráningu í kauphöll Íslands fyrir árslok 2027.

Takk fyrir allt Sveinn!
Sveinn hefur frá upphafi verið lykilmaður í mótun og uppbyggingu Kletts, frábær leiðtogi með óbilandi drifkraft og einlægan áhuga á fólkinu okkar. Við hjá Kletti viljum þakka Sveini innilega fyrir ómetanlegt framlag síðustu ár og óskum honum velfarnaðar í nýjum verkefnum innan samstæðunnar. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs, nú í nýju hlutverki!