Scania Super sigurvegari “Green Truck” 2022

Scania Super sigurvegari “Green Truck” 2022

Sjötta árið í röð hefur Scania unnið hin virtu “Green Truck” verðlaun fyrir framúrskarandi nýtni og eldsneytishagkvæmni. Öllum framleiðendum vörubíla í stærri flokki í Evrópu er árlega boðið að taka þátt í samanburðarprófun sem er skipulögð af tveimur þýskum fagtímaritum með það að markmiði að finna sparneytnasta langflutningabílinn.

„Ég er ákaflega ánægður og stoltur með að Scania er flokkaður sem hagkvæmasti vörubíllinn sjötta árið í röð,“ segir Stefan Dorski, aðstoðarforstjóri og yfirmaður Scania Trucks. „Super aflrásin hefur breytt markaðnum þar sem viðskiptavinir okkar njóta nú góðs af allt að 8% eldsneytissparnaði.“

Nýja Scania Super 13 lítra vélin sem kynnt var í nóvember 2021 og er nú fáanleg í fjórum útfærslum fyrir Euro 6e. Scania tók þátt í „Green Truck“ prófinu með nýju Scania Super vélinni þar sem sama 340 km leiðin er farin á hverju ári við mismunandi aðstæður. Í ár var notast við 500 hestafla Scania Super 4×2 dráttarbifreið með tengivagni, heildarþyngd 40 tonn.

Green Truck prófið er skipulagt af fagtímaritunum, „Trucker“ og „Verkehrs-Rundschau“. Tilgangurinn með því er að finna hagkvæmasta vörubílinn með því að nota formúlu sem tekur bæði eldsneytisnotkun og meðalhraða með í reikninginn. Þættir sem hafa áhrif á niðurstöður svo sem útihitastig og mótvindur er bætt upp með því að nota viðmiðunarbíl með vel skjalfestri frammistöðu sem tekur hvert próf samhliða keppendum.

,,Með nýrri vélalínu sem Scania hefur þróað brúum við bilið og fullnýtum þá möguleika sem hefðbundin dísel vél hefur og erum því með umhverfisvænustu díselvél sem fáanleg er í vörubíl um þessar mundir.” segir Sigurjón Örn Ólafsson, þjónustustjóri flutningatækja.

Fyrr á þessu ári fóru sölumenn Kletts til Scania og fengu að prufukeyra nýja Scania Super vörubílinn. „Afar skemmtilegur mótor sem gefur góða aksturstilfinningu ásamt frábærum nýjum gírkassa sem hvort um sig stuðlar að umtalsverðri minnkun á Co2 losun. “ segir Ívar Atli Brynjólfsson, sölufulltrúi Kletts. En bíllinn skilar 7 tonnum minni kolefnislosun á ári miðað við bifreið sem ekur u.þ.b. 100 þúsund km á ári.


Aðrar fréttir