Tveir nýir Scania körfubílar til slökkviliðsins

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins tók nýlega við tveimur nýjum Scania körfubílum með körfum frá Bronto Skylift. Bílarnir eru útbúnir nýjustu tækni sem skiptir sköpum fyrir störf slökkviliðsmanna.

Nýjasta tækni sem eykur öryggi

Afhendingin fór fram við formlega athöfn á slökkvistöðinni við Skútahraun í Hafnarfirði. Fulltrúar frá Bronto Skylift í Finnlandi voru viðstaddir afhendinguna en þeir eru framleiðendur körfubifreiðanna. Slökkviliðið hefur aldrei verið með körfubíla sem ná jafnt langt en annar bíllinn nær 45 metra vinnuhæð og hinn er með 32 metra vinnuhæð. Hæðin er þó ekki lykilatriði að sögn Jón Viðars Matthíassonar, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, heldur eru bílarnir útbúnir nýjustu tækni sem eykur til muna björgunargetu slökkviliðsins og þar með öryggi íbúa á höfuðborgarsvæðinu sem og starfsfólks SHS. „Aðalbreyting er að það auðveldara að stýra vatnsflæðinu uppi, þú getur stýrt því niðri og þarft ekki að senda menn upp í körfum þegar þú ert að fara í brennandi hús.“ Á stærri bílnum er einnig 3.000 l m slökkvidæla sem gerir það að verkum að hann þarf ekki að vera tengdur dælubíl og eykur þetta notagildi körfubílsins talsvert.

Scania slökkviliðsbílarnir hafa fyrir löngu sannað gildi sitt hér á landi.

Farsælt samstarf í 25 ár

Klettur hefur þjónustað slökkviliðið frá aldamótum og höfum við átt afar farsælt samstarf. Samkvæmt Jóhannesi Georgssyni, sölustjóra Scania, leggur Klettur mikið upp úr að veita sem besta þjónustu enda mikilvægt að bílarnir séu ávallt tilbúnir í útköll. ,,Við erum jafnramt orðnir formlegur umboðsaðili Bronto Skylift á Íslandi sem mun bæta þjónustuna við slökkviliðið enn frekar.“ Jón Viðar hefur verið ánægður hversu vel samstarfið hefur gengið í gegnum tíðina. ,,Það er náttúrulega ekki sjálfgefið að vera þjónustuaðili fyrir lið eins og slökkviliðið. Það þarf alltaf að vera tilbúin og ef það kemur símtal þá þarf að bregðast við og það hefur algjörlega gengið eftir.“

,,Þessir bílar eru í raun og veru bylting fyrir okkur og eru að leysa af bíla sem voru orðnir 25 ára gamlir og á 25 árum breytist ýmislegt. Það er allt þetta nýjasta í þessum bílum hitmamyndavélar, þeir eru sneggri, hljóðlátari og í raun og veru allt sem einhvern vegin talar betur við okkar svæði og við okkar starfsfólks og fyrir utan að við komumst hærra heldur en við gátum áður.“

Aðrar fréttir