Ný þjónustumiðstöð að Einhellu 1 í Hafnarfirði

Nýlega opnuðum við nýja og glæsilega þjónustumiðstöð við Einhellu 1 í Hafnarfirði. Þar er að finna vel útbúið verkstæði fyrir vinnuvélar og vörubíla, varahlutaverslun og hjólbarðaverkstæði fyrir vöru- og fólksbíla ásamt einu fullkomnasta smurkerfi landsins. Vellirnir eru ört vaxandi iðnaðarsvæði og mun þetta því koma til með að vera frábær þjónustumiðstöð fyrir atvinnulífið.

Eitt stærsta iðnaðarhverfi höfuðborgarsvæðisins

Sveinn Símonarson er framkvæmdastjóri þjónustusviðs Kletts: „Við erum búin að vera í þessari vegferð í nokkur ár að hugsa hvað við eigum að gera; hvort við ættum að stækka í Reykjavík eða hvað – en þegar við sáum þessa þróun sem hefur verið að eiga sér stað hér, að þetta hverfi er að verða eitt stærsta iðnaðarhverfi höfuðborgarsvæðisins, þá völdum við þennan kost. Klettagarðar voru það stórt verkstæði þegar það var byggt á sínum tíma að mönnum datt aldrei í hug að það myndi nokkurn tíma verða almennilega nýtt. Síðan varð það fullnýtt með tímanum og til að bregðast við eftirspurninni var farið að vinna á tvískiptum vöktum til miðnættis fjóra daga vikunnar til að geta sinnt öllum viðskiptavinunum."

Sveinn Símonarson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs, Bjarni Arnarson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðsviðs og Kristján Már Atlason, forstjóri Kletts.

Sterk tenging við Suðurnes og Suðurland

„Í þessum bransa, þar sem við erum að sinna atvinnulífinu og verktökum og uppi tími tækja skiptir langmestu máli, þá verður hreinlega að vera jafnvægi á milli seldra nýrra tækja og þjónustustigs. Við getum ekki haldið áfram að selja endalaust bíla og lengt biðtímann á verkstæðinu; því þarf að bregðast við og auka framboð og afkastagetu í þjónustunni. Þessi staður varð fyrir valinu því við sáum að hingað á Vellina og Hellurnar eru mjög margir af okkar viðskiptavinum að flytja með sína starfsemi. Við sáum líka að þetta myndi opna betur inn á Suðurnesin, sinna þeim ennþá betur því þar eigum við sterkan kúnnahóp og sama gildir um Suðurland; það er mun þægilegra að koma með stór tæki um Suðurstrandarveg og hingað heldur en að fara í gegnum umferðarþungann í Reykjavík.

Þjónustufyrirtæki sem selur tæki

„Við höfum tröllatrú á þessari staðsetningu, hér er Löður að opna trukkaþvottastöð, Frumherji er með skoðunarstöð í húsinu og Orkan er við endann á lóðinni með öflugar eldsneytisdælur fyrir allar gerðir ökutækja. Þannig að hér verður alhliða þjónusta fyrir verktaka í akstri, jarðvinnu- og byggingaframkvæmdum. Okkur hjá Kletti er mjög hugleikið það jafnvægi sem þar að vera á milli þjónustu og seldra tækja og við segjum gjarnan að Klettur sé í raun þjónustufyrirtæki sem selur tæki,“ segir Kristján Már Atlason forstjóri Kletts að lokum.

Á lóðinni er Orkan með öflugar eldsneytisdælur fyrir allar gerðir ökutækja og Löður er að opna trukkaþvottastöð.

Aðrar fréttir