Scania með sjálfbærasta flutningabílinn þriðja árið í röð - klettur.is

Scania hlaut á dögunum verðlaun fyrir sjálfbærasta flutningabíl ársins, hinn 100% rafknúna Scania 25 P BEV, á Sty 2022 verðlaunahátíðinni á Ítalíu. Þetta er þriðja árið í röð sem bíll frá Scania hlotnast þessi heiður og framkvæmdastjórn ESB hefur staðfest að framleiðandinn standi sig best meðal stórbílaframleiðanda í að draga úr losun koltvísýrings.

Scania hefur unnið fjölda sigra fyrir sjálfbærni flutningabíla sinna á undanförnum misserum en í umsögn dómnefndar, sem skipuð var fulltrúum tímaritanna Vade e Torno og Sustainable Truck & Van, segir að vél 25 P BEV sé ákaflega umhverfismild en öryggisbúnaður og akstursþægindi til fyrirmyndar. Ljóst sé að kolefnislaus flutningamáti sé ekki lengur fjarlægur möguleiki fyrir komandi kynslóðir, Scania hafi sýnt að fyrirtækið sé nú þegar tilbúið með lausnir í sjálfbærnismálum.

Enrique Enrich, forstjóri Italscania, tók við verðlaununum fyrir hönd Scania og sagði þau staðfestingu á þeirri öflugu tækniþróun sem Scania hefði náð í umhverfismálum og sjálfbærum flutningum. „Rafrænar lausnir eru mjög mikilvægar fyrir flutningageirann, sérstaklega þar sem staðbundnar reglugerðir krefjast þess oft að enginn útblástur og hljóðmengun stafi af bílunum,“ sagði Enrich við þetta tækifæri. Scania hlotnaðist einnig í sumar „The Green Truck Award“ fjórða árið í röð.

Sjá fleiri fréttir