Framúrskarandi þjónusta allan sólarhringinn

Mikilvægt að  geta veitt þjónustu þegar viðskiptavinurinn þarf mest á að halda

Ár er liðið síðan Klettur breytti opnunartíma sínum á Scania vörubílaverkstæðinu og smurþjónustunni. Nú er starfsfólk á vöktum þar frá mánudögum til fimmtudags frá klukkan 08:00 til 23:30 og á föstudögum frá 08:00 til 16:00. Samkvæmt Sigurjóni, þjónustustjóra flutningatækja og loftlausna, hefur þessi breyting gengið vonum framar. Ástæðan fyrir breytingunni var til að auka afkastagetuna á verkstæðinu ásamt því að nýta húsnæðið betur, en fyrst og fremst var það til að auka þjónustuna við viðkskiptavininn. Með þessu fyrirkomu lagi er hægt að bjóða upp á þjónustu á kvöldin til að takmarka vinnutap viðskiptavinarins. Einnig er hægt að vinna verk sem ætti að taka tvo daga jafnvel á einum degi og stytta þar með stopptíma tækisins. Klettur hefur aðeins fengið jákvæð viðbrögð við þessari viðbót á þjónustu sinni frá viðskiptavinum sínum, enda fá þeir þjónustu þegar þeir þurfa mest á að halda, samkvæmt Sigurjóni.

Krefjandi verkefni

Sigurjón hefur starfað hjá Kletti í 20 ár og var einn af þeim sem kom þessari breytingu á fót. Samkvæmt Sigurjóni var verkefnið krefjandi að því leiti að Klettur er að ryðja brautina hérna hérlendis með þessari uppsetningu. Fyrirkomulagið kemur frá Evrópu þar sem þessi opnunartími er þekktur víða á verkstæðum þar. Starfsfólk Kletts var jákvætt gagnvart þessum breytingum og mikil ánægja með að geta nýtt verkstæðið betur sem er sérhannað að starfsemi fyrirtækisins með sérverkfærum og tilheyrandi búnaði.

Ekkert aukagjald fyrir þjónustu á kvöldin

Ekkert aukagjald er tekið fyrir að fá þjónustu á kvöldin, heldur bendir Sigurjón á að það er eitt gjald innan opnunartíma verkstæðisins og smurþjónustunnar. Hins vegar er móttakan opin frá 08:00-17:00 og því er best að panta tíma hjá verkstæðismóttökunni á þeim tíma í síma 590-5200. Ársreynsla er komin á þennan opnunartíma og því mikil þekking hvaða verkefni eru sett á kvöldvaktina til að nýta verkstæðið sem best og veita sem besta þjónustu. „Mikil ánægja er með útkomuna og munum við halda áfram að aðlaga þjónustu okkar frekar að þörfum viðskiptavina okkar,“ segir Sigurjón.

Aðrar fréttir